Our Blog

Success is no accident. It is hard work, perseverance, learning, sacrifice and most of all, love of what you are doing or learning to do.

Okkar Eigin Osló

17/02/2011 - Kvikmyndir, Víðir Sigurðsson -

Ný Íslensk bíómynd verður frumsýnd í byrjun mars. Hún heitir “Okkar Eigin Osló” og var kvikmynduð af Víði Sigurðssyni ÍKS. Hann á að baki nokkrar myndir í fullri lengd og sjónvarpsþætti. Þar má helst nefna Köld Slóð, December, Mannaveiðar og Hamarinn.

Um hvað fjallar “Okkar Eigin Osló”?

Þetta er létt rómantísk gamanmynd sem fjallar um Vilborgu og Harald sem kynnist í viðskiptaferð í Oslo og eiga þar saman eitt kvöld. Síðan þegar þau koma heim fara þau saman í sumarbústað á Þingvöllum, þar sem Haraldur er formaður í sumarhúsafélagi. Myndin er síðan um þau og þeirra samband.

Á hvað er myndin tekinn?

Myndin er tekin á RED ONE myndavél sem var búið að uppfæra í nýju MX myndflöguna. Hluti af því sem gerist í Osló er tekið á Canon 5D. Ég var mjög ánægður með útkomuna, fann mikinn mun á að nota þessa nýju MX myndflögu og það er ánægjulegt að sjá hvað 5D efnið kemur vel út á tjaldinu.

Hvernig var eftirvinnsluferlið frá tökustað og inní klippiferlið?

Á setti sáum við um að kópera efnið yfir á harða diska sem síðan var farið með til klipparans í lok hvers dags. Hún sá síðan um að breyta RED skránum yfir í annað form sem hentaði betur til klippinga.

Litgreiningin fór fram hér á Íslandi,  hver sá um litgreininguna?

Litgreining fór fram í Pegasus þar sem Eggert Baldvinsson sá um að stýra hnöppunum.  Eggert er kominn með góða reynslu í að litgreina eftir að hafa gert það líka við Mömmu Gógó, Sumarlandið og Rokland. Pegasus eru líka búnir að koma sér upp flottri aðstöðu og vinnuferli við að litgreina bíómyndir sem teknar eru á RED.

Hvernig unnu þú og leikstjórinn saman við gerð myndarinnar?

Við Reynir Lyngdal leikstjóri byrjuðum að hittast mjög reglulega, rúmum tveimur mánuðuma fyrir tökur og fórum yfir senur og ræddum um hvernig við vildum hafa myndina. Við vorum því mjög vel undirbúnir þegar við byrjuðum tökur og vissum alltaf hvernig við vildum gera hlutina. Við vorum áður búnir að gera saman sjónvapsþættina Hamarinn og við lærðum þar að það er seint hægt að undirbúa sig nógu vel. Ég á ekki orð til að lýsa mikilvægi góðs undirbúnings fyrir svona verkefni. Á tökustað unnum við því mjög vel saman og þegar upp kom eitthvað óvænt vorum við fljótir að vinna úr því.

En samstarfið við leikmyndahönnuðinn, hvernig gekk það?

Það gekk mjög vel og var algjörlega til fyrirmyndar. Ég þekki þá líka orðið mjög vel. Við Eggert Ketilsson, leikmyndhönnuður, höfðum áður unnið saman við sjónvarpsþættina Mannaveiðar, kvikmyndina Desember auk a.m.k. tugi sjónvapsauglýsinga.

Voru einhverjar bíómyndir sem voru innblástur fyrir þig, og/eða leikstjórann?

Já, við Reynir skoðuðum mjög margar myndir saman þegar við vorum að undirbúa myndina. Það var engin ein sem var meira en önnur heldur eru þetta bútar héðan og þaðan sem við röðuðum saman eins og okkur fannst henta best.

Það er svo oft talað um að það sé mjög náið samband milli kvikmyndatökustjóra og ljósameistara, nánast einsog lítið hjónaband á settinu. Hversu náið var samband þitt við ljósameistarann og hvernig hönnuðu þið lýsinguna í myndinni?

Við Ásgrímur Guðbjartsson, ljósameistari, hittumst nokkum sinnum áður en tökur hófust, skoðuðum reffa og fórum yfir hvernig ég vildi að myndin liti út. Við tókum okkur líka góðan tíma saman í að skoða alla tökustaði og tryggja það að ekkert kæmi okkur á óvart í tökunum. Ásgrímur er snillingur með luktirnar og kom oft með snilldar lausnir. Ég verð líka að þakka sérstaklega Bergi Hinrikssyni og Valdimari sem voru með Ása í ljósadeildinni. Þeir framkvæmdu kraftaverk í að halda öllum ljósum gangandi í hávaða roki og grenjandi rigngingu á Þingvöllum dag eftir dag. Ég hef ekki tölu á því hversu mörg kvöld þeir stóðu úti í svoleiðs veðri að halda ljósum í lagi og passa að vatn kæmist ekki í rafmagnið.

Að skjóta bíómynd við íslenskar aðstæður getur oft verið ansi erfitt. Hvað var erfiðast að gera í myndinni sem kvikmyndatökustjóri?

Það var halda samhengi (continuity) í veðri og ljósi. Á Íslandi þar sem getur verið sól um morguninn, rigning í hádeginu og bjart aftur seinnipartinn er samhengið hausverkur. Það getur verið mjög flókið. Fyrstu vikurnar var þetta lítið mál og allt gekk upp en síðan komu dagar þar sem þetta varð að lítilli martröð. En ég held að við höfum náð að leysa úr flestu.

Það er mikil eldsena í myndinni, þar sem sumarbústaður brennur. Var ekki erfitt að hafa stjórn á eldinum og flókið að skjóta svona senu? Voru þið með margar vélar við þær tökur?

Það var mjög gaman að skjóta þá senu. Eggert leikmyndahönnuður fann mjög góða lausn til að  eldur í bústaðnum virtist mjög eðlilegur. Við höfðum góða stjórn á eldinum og gátum beðið um meiri eða minni eld eftir því sem við þurftum. Við vorum með tvær vélar þegar eldsenan var tekinn upp.

Var mikill munur fyrir þig að skjóta þessa mynd og til dæmis “Köld Slóð”?

Það var mikill munur.  Í fyrsta lagi er þetta allt örðuvísi mynd. Köld slóð var spennumynd tekin upp á hálendi að vetri til en Okkar eigin Oslo er gamanmynd, tekin að sumri til á láglendi. Köld slóð er tekin á filmu og er öll handheld en núna notuðum við stafræna tækni og öll kameruvinnsla er miklu fágaðari.

Hver er þín uppáhalds sena í myndinni? Og af hverju?

Uhh….. uppáhalds senan mín var klippt út! Það er sena þar sem Kolbeinn (Valgeir Skagfjörð) kemur til Haraldar (Þorsteinn Guðmundsson) og biður hann um að fara með sig út á bát. Þessi sena var eitthvað svo fallega einlæg og einföld. Tekin upp á sumardegi, við Þingvallavatn, þar sem íslensk náttúra er hvað fegurst. En í klippingunni kom í ljós að þessi sena passaði ekki inn í myndina og það var hárrétt ákvörðun að hafa hana ekki með. Annars eru margar senur í þessari mynd sem ég er mjög ánægður með út af mörgum mismundandi ástæðum.

Myndbrot úr myndinni

0 Comments
Would you like to share your thoughts?

Leave a Reply